Hljómfélagið

Tónleikaplaggat

Vortónleikar Hljómfélagsins 2015 voru af þverþjóðlegum toga, þar sem meðal annars hin vinsæla messa Misa Criolla eftir argentíska tónskáldið Ariel Ramirez var flutt og var stórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson einsöngvari í verkinu. Að auki var íslenskur frumflutningur á kórverkinu Fimm hebresk ástarljóð eftir Eric Whitacre. Af íslenskum verkum voru til dæmis Afmorsvísa eftir Snorra Sigfús Birgisson og Ég vil lofa eina þá eftir Báru Grímsdóttur, Hrafnar eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson var frumflutt í nýrri kórútgáfu auk fjölda nýrri og eldri íslenskra kórverka.

Hljómfélagið er blandaður áhugamannakór sem var stofnaður á vormánuðum 2015. Hugmyndin kviknaði hjá nokkrum fyrrum skólafélögum sem sungu lengi saman í Skólakór Kársness. Á stuttum tíma hefur Hljómfélagið vaxið hratt og skipar núna tæplega fimmtíu manns sem koma víða að.